Upplýsingar

Pysjutími

Í seinnihluta ágúst og byrjun september fer pysjan, ungi lundans, að hugsa sér til hreyfings eftir að hafa verið í góðu yfirlæti í lundaholu foreldra sinna frá því hún klaktist úr egginu. Kvöld eitt yfirgefur hún holuna fyrir fullt og allt, tekur flugið og stefnir á haf út.

Flestar lenda pysjurnar á sjónum en allmargar fljúga þó að ljósunum í bænum og lenda á götum, gangstéttum eða í húsagörðum í Vestmannaeyjabæ.

En pysjurnar eiga sér góða bandamenn í bænum. Hvarvetna eru hjálpfúsar hendur barna sem fara um bæinn á þessum árstíma með pappakassa og safna saman þeim pysjum sem villst hafa af réttri leið. Um nóttina fá pysjurnar gistingu í mannheimum. En næsta dag er farið með þær í pysjueftirlitið og síðan niður að sjó og þeim gefið frelsi.

Frá því elstu menn muna hafa börn í Vestmannaeyjum bjargað lundapysjum. Fór björgunin fram með sama sniði og nú er, nema að þá voru allir fótgangandi. Þá var helsti sleppistaðurinn við gamla Þurrkhúsið, sem nú er farið undir hraun.

Hvar og hvenær?

Flestar pysjurnar eru að finnast á svæðum sem eru ekki langt frá lundabyggðinni.
Stór lundabyggð er t.d. í Heimakletti og því finnast alltaf fjöldi pysja úti á Eiði og við höfnina. Einnig er lundabyggð í Dalfjalli og þaðan fljúga pysjurnar í Dalinn, á golfvöllinn og í vesturbæinn. Einnig hefur veðrið nokkur áhrif og eru t.d. fleiri pysjur að finnast ofar í bænum ef það er hvöss norðanátt.

Mismunandi er hvenær pysjurnar ákveða að yfirgefa holurnar. Síðustu árin hafa fyrstu pysjurnar fundist í bænum í seinni hluta ágúst og þær síðustu um 4-5 vikum síðar. Pysjurnar taka flugið þegar fer að dimma og því eru þær flestar að finnast seint á kvöldin og fram á nótt. Einnig er góður möguleiki að finna pysjur snemma á morgnana.

Hvers vegna ?

Pysjurnar sem lenda í bænum myndu fæstar komast af sjálfsdáðun til sjávar.

Það eru margar hættur sem leynast í bænum fyrir litlar pysjur s.s. hundar, kettir og bílar. Stærsta ógnin sem að pysjunum steðjar er þó að finna ekki leiðina að sjónum og að endingu drepast úr hungri.

Það er mikil ánægja fólgin í því ð hjálpa þessum litlu bjargarlausu ungum og koma þeim til sjávar.

Hvernig ?

Fara um helstu svæðin, ýmist gangandi eða akandi og leita eftir pysjum. Gott er að vera með vasaljós og lýsa inn í myrk skúmaskot og undir bíla, gáma, kör o.þ.h. því pysjurnar reyna gjarnan að fela sig. Þær hafa engan skilning á því að verið sé að bjarga þeim.

Stundum þarf að elta þær uppi og þá skal varast að stíga á þær í látunum. Gott er að vera tveir eða fleiri saman. Best er að setja pysjurnar síðan í pappakassa.

Kort yfir helstu fundarstaði lundapysja
Frá árinu 2015 höfum við í pysjueftrilitinu skráð niður fundarstaði þeirra pysja sem komið er með til okkar. Út frá þeim upplýsingum höfum við gert mjög gróft kort yfir helstu fundastaðina.

    Við pysjubjörgun er vert að hafa nokkur atriði í huga:

•Gott er að hafa pappakassa meðferðis til að setja pysjurnar í þegar þær finnast. Einnig getur verið gott að vera með vasaljós. •Það er mjög mikilvægt að sleppa pysjumstrax daginn eftir að þær finnast. Ef þeim er haldið lengur léttast þær hratt og verða slappar. Þær verða stressaðar í þessu nýja umhverfi sem pappakassinn er og setja oft mikla orku í að sleppa úr prísundinni.
• Best er að hafa aðeins eina pysju í hverjum kassa. Þær verða oft mjög stressaðar ef þær eru margar saman og geta jafnvel skaðað hver aðra.
•Mikilvægt er að meðhöndla pysjurnar ekki mikið, því að við það geta þær misst fituna úr fiðrinu sem er þeim svo mikilvæg til að halda vatni frá líkamanum. Pysjur sem er haldið lengi og mikið meðhöndlaðar eiga ekki mikla möguleika á að lifa.
•Varast ber setja stór loftgöt á pappakassann, því að pysjurnar reyna gjarnan að komast út um gatið og geta þá fengið sár við goggrótina og geta jafnvel hengt sig.
•Alla jafna þarf ekki að gefa pysjunum neitt að éta þann stutta tíma sem þær eru í haldi og alls ekki skal setja mat fyrir þær í botn kassans, því að þá geta þær fengið fitu og óhreinindi af honum í fiðrið og af þeim sökum misst vatnsheldnina.
•Aldrei skal sleppa pysjum í höfnina, því þá geta þær lennt í olíuflekkjum.

MUNUM

að við erum að BJARGA pysjunum sem fljúga í bæinn. Gerum allt sem í okkar valdi stendur til að þær komist heilar á húfi út á sjóinn.

MUNUM

eftir endurskins- merkjunum á kvöldin og förum varlega við sjóinn þegar pysjunum er sleppt

MUNUM

að pysjur eru hvorki leikföng né gæludýr

Pysjunum sleppt

Þegar búið er að fara með pysjurnar í pysjueftirlitð þá þarf að finna góðan stað til að sleppa þeim. Ef veðrið er gott þá eru allir staðirnir sem merktir eru inn á kortið góðir sleppistaðir. Ef hvasst er og mikið brim þá getur verið betra að sleppa pysjunum hlémegin. Aldrei skal þó sleppa pysjum í höfnina eða við Skansinn.

Höfðavíkin er mjög vinsæll sleppistaður, sérstaklega vegna þess að svæðið er nokkuð öruggt fyrir börn. En selir, máfar og skúmar sitja stundum fyrir pysjunum þar og því er gott að hafa fleiri staði í huga.  Hamarinn og Stórhöfði eru góðir staðir að því leyti að pysjurnar ná góðu flugi og komast lengra frá landi. Varast skal að fara of nálægt brúninni, enda óþarft því pysjurnar ná  það góðu flugi þarna.

Flestir sleppa pysjum með því að halda með báðum höndum utan um pysjuna án þess að halda um vængina.  Þá fer pysjan að blaka vængjunum eins og hún sé að reyna að hefja sig til flugs. Sá sem er að sleppa hjálpar þá aðeins til og kastar pysjunni upp á við. Þannig nær hún nokkurri hæð og flýgur lengra. Aðrir kasta þeim eins og amerískum fótbolta og halda þá um vængina í kastinu.

Í Stórhöfða getur verið gaman að setjast niður og setja pysjurnar í grasið í stað þess að kasta þeim upp í loftið. Þá ná þær að laga sig aðeins til áður en þær leggja af stað. Síðan er fylgst með því þegar þær hafa sig í að taka flugið. Sumar fljúga strax af stað meðan aðrar þurfa virkilega að hugsa málið. Ef þær stinga sér inn í næstu lundaholu, þá er það allt í lagi, þær fara þá bara aðeins seinna

Á einum stað við hamarinn er nú búið að hlaða vegg til þess að gera sleppistaðinn við hamarinn öruggari en áður fyrir yngri kynslóðina. Áfram þurfum við að passa okkur. Einnig er mjög góð aðstaða til að sleppa við golfvöllinn þar sem búið er að byggja brú.

Pysjueftirlitið

Frá árinu 2003 hefur verið starfrækt svonefnt pysjueftirlit í Vestmannaeyjum. Árin á undan höfðu verið óvenju fáar pysjur að fljúga í bæinn og áhugi var fyrir því að skoða þessa þróun nánar. Markmið pysjueftirlitsins er að meta ástand og fjölda þeirra pysja sem lenda í bænum ár hvert.

Eftirlitið fer þannig fram að börnin fara með þær pysjur sem þau finna í pysjueftirlitið, þar sem þær eru vigtaðar og vængmældar áður en þeim er sleppt á haf út. Þannig fást mikilvægar upplýsingar um fjölda pysja, ástand þeirra og hvenær þær yfirgefa holurnar.

Þátttaka bæjarbúa í þessu eftirliti hefur verið mjög góð og sumar fjölskyldur koma nánast daglega með pysjur.

Þó svo að ekki fari allar pysjur sem finnast í gegnum þetta eftirlit þá gefur það samt góða vísbendingu um breytingar sem verða milli ára í fjölda pysja og ástand þeirra.

Um fjórðungur lundapysja sem hefur borist í eftirlitið síðustu árin hefur verið merktur og er það í höndum starfsmanna Náttúrustofu Suðurlands. Merkingar geta gefið mjög mikilvægar upplýsingar og er það t.d. vegna merkinga á bæjarpysjum sem við vitum að lundar geta orðið rúmlega fertugir.

Pysjuhótel

Við leggjum ávallt mikla áherslu á að pysjum skuli sleppt strax daginn eftir að þær finnast.  En sumar af þeim pysjum sem komið er með í pysjueftirlitið eru þó of litlar og dúnarðar til að hægt sé að sleppa þeim strax. Lífslíkur þeirra eru ekki miklar í sjónum.

Fyrir þessar litlu pysjur er starfrækt svokallað pysjuhótel í Sea Life Trust. Þær fá að dvelja þar í nokkra daga, eða þar til þær hafa náð að þyngjast nokkuð og losna við dúninn að mestu. Þá eru þær tilbúnar til að halda á haf út.

Það að ala pysju í stað þess að sleppa henni er neyðarúrræði og skal einungis gert ef það eru litlar líkur á að hún nái að spjara sig. Pysjum sem eru fullgerðar á skilyrðislaust að sleppa við fyrsta tækifæri.

Hreinsun

Á hverju ári eru einhverjar pysjur sem lenda í olíu,  grút  eða öðrum óhreinindum og þarf þá að hreinsa þær og endurhæfa áður en hægt er að sleppa þeim.

Olíublautar pysjur sem komið er með í pysjueftirlitið eru hreinsaðar í sápuvatni, sem inniheldur sérstaka sápu sem er notuð um allan heim í þessum tilgangi. Eftir hreinsunina eru þær skolaðar mjög vandlega. Síðan eru þær þurrkaðar undir hitalömpum.

Fer það nokkuð eftir tegund og magni óhreininda hversu vel gengur að hreinsa pysjurnar, en oftast er nóg að hreinsa þær einu sinni. Áður en pysjurnar fá brottfararleyfi eru þær prófaðar og athugað hvort þeim sé óhætt að fara út á sjóinn. 

Það er alltaf góð tilfinning að sleppa lundapysjum og horfa á þær fljúga út á sjóinn, en það er alveg sérstaklega ánægjulegt að horfa á eftir hreinsuðu pysjunum okkar.